Að sögn Gunnars Karls Guðmundssonar, forstjóra MP Banka, hefur verið unnið að því að undanförnu að styrkja stoðdeildir bankans enn frekar til að geta veitt viðskiptavinum þeirra alhliða bankaþjónustu. Breytingar á bankamarkaði síðasta haust orðið til þess að margir sparifjáreigendur hafa fært fjármuni sína til þeirra í eignastýringu og í sjóði bankans. Þetta kemur fram í viðtali við Gunnar Karl í Viðskiptablaðinu í dag.

,,Bankinn var ekki með neina stöðutöku í bönkum fyrir hrun og var jafnframt vel varinn gagnvart gengissveiflum og verðbólgu. Vissulega varð bankinn fyrir útlánatapi en í ljósi umfangs hrunsins verður að telja að MP Banki hafi náð að verjast áfallinu með mjög árangursríkum hætti, enda skilaði hann hagnaði á síðasta ári og eiginfjárhlutfall bankans (CAD hlutfall) var 22,3% í lok árs 2008. Sú staðreynd að bankinn hefur ekki þurft á neinni aðstoð hins opinbera að halda veitir honum styrk og skapar honum velvild, ekki hvað síst meðal erlendra lánardrottna, en bankinn hefur nú greitt upp öll sín erlendu lán og aldrei kom til greiðslufalls þrátt fyrir erfiðleika í gjaldeyrisöflun vegna hafta," segir Gunnar Karl.

__________________________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á vefnum. Hægt að óska eftir lykilorði og áskrift á vefnum.