Samkomulag hefur náðst um kaup MP banka á Júpíter rekstrarfélagi hf. Félagið var áður að hluta í eigu bankans en Júpíter sá um sjóðastýringu fyrir MP Banka. Aðrir eigendur Júpíters eru þeir Ragnar Dyer, Sigurður Hannesson og Styrmir Guðmundsson. Þeir munu allir starfa áfram hjá félaginu. Starfsmenn félagsins eru fjórir.

Kaupverð er trúnaðarmál en viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila.

Júpíter sérhæfir sig í stýringu fjármuna og starfrækir fjóra verðbréfasjóði og einn fagfjárfestasjóð. Viðskiptavinir félagsins eru meðal annars lífeyrissjóðir, tryggingafélög, eignastýringarsvið fjármálafyrirtækja, önnur rekstrarfélög og efnameiri einstaklingar. Hagnaður Júpíter nam 92,2 milljónum króna eftir skatta á árinu 2010.

Fram kemur í tilkynningu um kaupin að eignir Júpíters í stýringu nema um 10,5 milljörðum króna. Eignir í stýringu innan MP banka munu því nema samtals 54 milljörðum króna eftir kaupin.

Nýir eigendur keyptu MP Banka í apríl. Síðan þá hefur bankinn meðal annars keypt ALFA verðbréf og fyrirtækjaráðgjöf Saga fjárfestingabanka.

Sigurður Atli Jónsson - Forstjóri MP Banka
Sigurður Atli Jónsson - Forstjóri MP Banka
© BIG (VB MYND/BIG)