MP banki mun rukka þá viðskiptavini sína sem eru ekki með tvær milljónir króna eða meira í formi innlána, séreignasparnaðar, eignastýringar eða útlána hjá bankanum um nýtt 750 króna viðskiptagjald á mánuði frá 1. september næstkomandi.

Þeir viðskiptavinir sem eiga eða skulda tvær milljónir króna eða meira þurfa ekki að greiða umrætt gjald.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en þar er vísað í bréf sem MP Banki sendi viðskiptavinum sínum í vikunni.

Í bréfinu kemur fram að bankinn hafi í apríl kynnt breyttar áherslur. Í þeim felst meðal annars að bankinn muni einbeita sér frekar að bankaþjónustu fyrir atvinnulífið og að nýtt kjörorð bankans er banki atvinnulífsins.

Í tengslum við þessar breytingar hefur MP banki nú ákveðið að umfangsviðmið einstaklingsviðskipta verði skilgreint að lágmarki tvær milljónir króna. Þeir einstaklingar sem eru í viðskiptum hjá bankanum sem uppfylla ekki nýju umfangsviðmiðin verða rukkaðir um 750 krónur á mánuði frá 1. september næstkomandi.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, segir gjaldið fyrst og fremst vera lagt á til að standa straum af auknum gjöldum og sköttum. Um leið er verið að draga mörkin um umfang viðskiptavina.

Sjá nánar í Fréttablaðinu.