MP banki hf. lauk í dag sínu fyrsta víxlaútboði. Víxlarnir eru til fjögurra mánaða og er útgefin fjárhæð 420 milljónir króna að nafnvirði, að því er kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Útboðið var lokað og voru víxlarnir seldir á 5,70% flötum vöxtum með forvaxtafyrirkomulagi. Víxlarnir eru rafrænt skráðir hjá Verðbréfaskráningu Íslands.

Í tilkynningunni er haft eftir Sigurði Atla Jónssyni, forstjóra bankans, að það að ljúka fyrstu víxlaútgáfu bankans sé ánægjulegur áfangi. Viðtökur fjárfesta hafi verið mjög góðar og að hann sé sáttur við þau kjör sem buðust og hann telji útboðið í heild endurspegla traust fjárfesta til bankans. Það sé jákvætt að fjölga fjármögnunarleiðum bankans og skapa honum sess sem traustum útgefanda.