MP banki er með mesta veltu á skuldabréfamarkaði í Kauphöll Íslands á fyrstu sex mánuðum ársins. Velta bankans nam 632 milljörðum króna sem er 26% af allri veltu skuldabréfa í Kauphöllinni. Heildarvelta á skuldabréfamarkaði fyrstu sex mánuði ársins nam rúmlega 2.430 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MP banka. „Mikil hlutdeild MP banka undanfarin ár endurspeglar traust fjárfesta og góða þjónustu við framkvæmd viðskipta á markaði. Leiðandi staða bankans auðveldar viðskiptavinum bankans að ná bestu kjörum í viðskiptum auk þess að einfalda viðskipti með háar fjárhæðir.“

Hlutdeild bankans á skuldabréfamarkaði í fyrra nam 28,5% og 31,7% árið 2009.