MP banki og Straumur fjárfestingabanki eru nú í viðræðum um mögulega sameiningu. Sagt er frá þessu í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Þar segir jafnframt að viðræðurnar hafi byrjað fyrir um þremur vikum, að frumkvæði Straums, en séu enn á byrjunarstigi.

Haft er eftir Sigurði Atla Jónssyni, forstjóra MP banka, að ekkert sé ákveðið í þessum efnum en ánægjulegt sé þó að bankanum sé sýndur áhugi. Hann bendir á að staða bankans sé sterk.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru sumir af stærstu hluthöfum MP banka, t.a.m. Skúli Mogensen, áhugasamir um að kanna frekar möguleika á að sameinast Straumi. Viðræðurnar um sameininguna hafa því hingað til mest verið milli Straums og sumra af hluthöfum MP banka.