MP banki hf. og Straumur fjárfestingarbanki hf. sameinuðust formlega í dag, en þetta kemur fram frá nýjum banka. Bankarnir hafa uppfyllt öll skilyrði sem sett voru fyrir samrunanum og sameinast nú undir nafni og kennitölu MP banka. Mun nýr banki heita MP Straumur fyrst um sinn, en þetta kom fram í tilkynningu frá nýjum banka.

Hér að neðan má sjá tilkynninguna í heild sinni.

MP banki og Straumur fjárfestingabanki sameinaðir

  • Sameining MP banka og Straums fjárfestingarbanka gekk formlega í gegn í dag. Sameinaður banki mun starfa undir heitinu MP Straumur þar til nýtt nafn hefur verið kynnt.
  • Stjórn sameinaðs banka kjörin á hluthafafundi í morgun. Þorsteinn Pálsson áfram stjórnarformaður sameinaðs banka.
  • Nýtt skipurit í sameinuðum banka samþykkt.
  • Í dag var ráðist í hagræðingaraðgerðir sem fylgja sameiningunni. Alls láta tólf starfsmenn bankans af störfum.

„Þetta eru stór tímamót og ástæða til að fagna því hversu vel þessi sameining hefur gengið fyrir sig,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri sameinaðs banka. „Vinnu við sameininguna er þó alls ekki lokið. Mikið verk er framundan við að sameina fyrirtækin og allt það góða starfsfólk sem hér starfar.“

Allt kapp er lagt á að sameiningin hafi ekki rask í för með sér fyrir viðskiptavini bankanna. Öll réttindi og skyldur Straums flytjast yfir á kennitölu MP banka. Sameiningin hefur engar breytingar í för með sér fyrir viðskiptavini bankans.

Höfuðstöðvar sameinaðs banka verða í Borgatúni 25 en fyrst um sinn verður starfsemin á tveimur stöðum. Markaðsviðskipti verða staðsett í Borgartúni en bankaþjónusta og eignastýring í Ármúla 13a. Stefnt er að því að sameina alla starfsemi bankans í Borgartúni fyrir haustið.

Nýtt skipurit

Sameinaður banki verður með sterka stöðu á sviði fjárfestingabankastarfsemi og eignastýringar og mun horfa til frekari sóknarfæra á þeim sviðum. Bankinn hefur á að skipa úrvals starfsfólki sem mun taka þátt í að leiða fyrirtækið inn í nýja tíma.

Í nýju skipulagi bankans eru fjórar tekjueiningar:

·         Eignastýring

·         Markaðsviðskipti

·         Fyrirtækjasvið

·         Alþjóðasvið

Framkvæmdastjóri eignastýringar er sem fyrr Sigurður Hannesson. Undir sviðið falla eignastýring, einkabankaþjónusta og sérhæfðar fjárfestingar.

Framkvæmdastjóri markaðsviðskipta er Bjarni Eyvinds Þrastarson áður framkvæmdastjóri markaða. Undir sviðið heyra verðbréfamiðlun, afleiðumiðlun og gjaldeyrismiðlun.

Framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs er Ásgeir Helgi Reykfjörð, fyrrum yfirlögfræðingur MP banka. Fyrirtækjasvið mun skiptast í bankaþjónustu og lánasvið.

Framkvæmdastjóri alþjóðasviðs verður Magnús Bjarnason, nýr starfsmaður bankans. Hann mun stýra fyrirtækjaráðgjöf og viðskiptastjórnun.

Magnús tekur til starfa 1. ágúst næstkomandi. Magnús starfaði áður sem forstjóri Icelandic Group á árunum 2012 til 2014. Fyrir þann tíma starfaði hann meðal annars sem framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, alþjóðasviðs Íslandsbanka og dóttur fyrirtækis þess í Bandaríkjunum Glitnir Capital Corporation sem síðar varð Glacier Partners. Magnús var einnig viðskiptafulltrúi og aðalræðismaður Íslands í New York á árunum 1997 til 2003.

Framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs er Magnús Ingi Einarsson, fyrrum framkvæmdastjóri fjármála hjá Straumi. Undir fjármála- og rekstrarsvið heyrir fjármálasvið, fjárstýring, eigin viðskipti, bakvinnsla og upplýsingatækni.

Hildur Þórisdóttir verður markaðs- og mannauðsstjóri , Thomas Skov Jensen verður forstöðumaður áhættustýringar , Birna Hlín Káradóttir yfirlögfræðingur og Daníel Pálmason regluvörður.

Starfsmannabreytingar

Sameiningunni og nýju skipulagi fylgja óhjákvæmilega hagræðingaraðgerðir. Þær fóru fram í dag og létu tólf starfsmenn sameinaðs banka á ýmsum sviðum bankans af störfum.

Af þeim tólf starfsmönnum sem hætta störfum fyrir MP banka eru átta karlmenn og fjórar konur.

Það er leitt að sjá á eftir góðum félögum. Bankinn þakkar þeim starfsmönnum sem nú láta af störfum fyrir vel unnin störf og framlag til uppbyggingar MP banka og Straums fjárfestingabanka og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.