Stjórnir MP banka og fjármálafyrirtækisins Virðingar hafa ákveðið að taka upp formlegar viðræður um sameiningu félaganna. Með sameiningu MP banka og Virðingar yrði til öflugt fjármálafyrirtæki sem væri leiðandi á fjárfestingabankamarkaði og einn stærsti aðili í eignastýringu á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu. Ekki er hægt að segja til um það hve langan tíma viðræður munu taka, en allt kapp verður lagt á að hraða þeim eins og hægt er.

Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður Virðingar, sagði í samtali við VB.is undir lok síðasta mánaðar ekki útiloka að af sameiningu verði í því skyni að nýta tækifæri sem felist í því að veita stóru viðskiptabönkunum þremur aukna samkeppni.