MP banki skilaði 465 milljóna króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 22 milljóna króna hagnað á fyrsta ársfjórðungi árið 2012. Hagnaður fyrir tekju- og bankaskatta nam 433 milljónum króna. Í tilkynningu kemur fram að fyrsti ársfjórðungur 2013 er besti ársfjórðungur í rekstri bankans frá upphafi.  Námu hreinar rekstrartekjur 1.105 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi og hafa vaxið um 35% á milli ára. Aukning vaxta- og þóknanatekna nam um 26% á milli ára.

Hreinar vaxtatekjur voru 473 milljónir króna og hreinar þóknanatekjur 420 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2013. Hreinar fjárfestingatekjur voru 143 milljónir króna samanborið við 82 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2012. Hlutdeildarfélög skiluðu 14 milljóna króna hagnaði.

Um helmingur af afkomu skýrist af endurheimtum af sértækum niðurfærslum en niðurfærslur voru jákvæðar um 221 milljón á fyrsta ársfjórðungi.

Heildareignir námu 63 milljörðum króna við lok fyrsta ársfjórðungs. Útlán jukust um 1,8 milljarða og námu alls 29,6 milljörðum króna. Innlán að meðtöldum peningamarkaðsinnlánum námu 47,9 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs.

Eiginfjárhlutfall bankans var 12% í lok fyrsta ársfjórðungs. Lögbundið eiginfjárhlutfall er 8% að lágmarki.