Að teknu tilliti til þess að vaxtastigið er enn of hátt miðað við ástand innlends efnahagslífs og hve ólíklegt er að afnám hafta hefjist á næstunni við þessar óvissu aðstæður er líklegast að peningastefnunefnd Seðlabankans taki heldur stærra skref en undanfarið og lækki vexti um 0,75 prósentur á morgun.

Þetta kemur fram í stýrivaxtaspá greiningardeildar MP Banka en peningastefnunefnd Seðlabankans mun kynna ákvörðun um vexti bankans á morgun.

„Við mátum það svo í maí að líklegast væri að peningastefnunefndin mynd lækka vexti um hálfa prósentu á hverjum vaxtaákvörðunarfundi út árið. Líkur á meiri lækkun vaxta nú hafa aukist þrátt fyrir að óvissa um efnahagsþróun næstu missera sé síst minni en hún var í vor,“ segir í spá MP Banka.

„Verðbólga hefur hjaðnað hraðar en við áttum von á undanfarna mánuði. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 4,8% en hún mældist yfir 8% í mars og apríl. Viðskiptavegið gengi krónunnar er nú 12% sterkara en um áramótin og 1,7% sterkara en um síðustu mánaðarmót. Peningastefnunefndin hefur ávallt lagt á það áherslu í sínum fundargerðum að lægri verðbólga og sterkara gengi séu forsendur fyrir frekari vaxtalækkunum.“

Þá segir MP Banki að atvinnuleysi mælist nú minna en almennt hafi verið spáð og síðustu fjóra mánuði sé atvinnuleysi minna en sömu mánuði í fyrra.

„Einkaneysla jókst aðeins á fyrsta ársfjórðungi og fjárfesting atvinnuveganna jókst um tæpan helming miðað við árstíðaleiðrétta breytingu frá sama fjórðungi í fyrra,“ segir í spá MP Banka.

„Enn fremur sagði seðlabankastjóri í ríkissjónvarpinu fyrir réttri viku að vænta mætti jákvæðra þjóðhagstalna fyrir annan ársfjórðung en Hagstofan birtir þær í byrjun næsta mánaðar. Þá gaf hann einnig ótvírætt til kynna að hann teldi ástæðu til þess að lækka vexti frekar og var jákvæður á að meirihluti fyrir því fengist í peningastefnunefndinni sem nú fundar um það mál.“

Þá segir í spá MP Banka að þessu til viðbótar hafi innlendir markaðsvextir, á verðtryggðum jafnt sem óverðtryggðum skuldabréfum, lækkað töluvert frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi bankans.

„Megin ástæða þess að Seðlabankinn hefur haldið skammtímavöxtum háum er til þess að sporna gegn skorti á trausti á íslenskt efnahagslíf sem verið hefur viðvarandi frá því haustið 2008,“ segir í spá MP Banka.

„Hömlum á fjármagnsflutninga frá landinu hefur verið beitt til þess að halda aftur af útflæði fjármagns, ekki síst innlends sparifjár. Slíkar hömlur geta reynst skaðlegar til lengdar þótt þær séu réttlætanlegar sem neyðarúrræði. Forsenda þess að aflétta þeim er að traust hafi á ný skapast á innlent efnahagslíf.  Og þegar hömlunum er aflétt þurfa vextir að vera nógu háir til að koma í veg fyrir stórfelldan fjármagnsflótta.“