Tap MP banka á fyrri hluta þessa árs nam tæplega 1,9 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var 3,2 milljarðar króna í lok tímabilsins og var eiginfjárhlutfall hans 9,2%. Heildareignir voru tæplega 62,4 milljarðar króna og námu heildarskuldir um 59,2 milljörðum króna.

MP banki birti í dag árshlutareikning sinn fyrir fyrri hluta árs. Í tilkynningu frá bankanum segir að bankanum gangi vel. Afkoma á fyrri helmingi árs 2010 hafi engu að síður verið óviðunandi. Segir í tilkynningu að þar vegi þyngst styrking krónunnar, niðurfærsla á lánum í erlendri mynt og gjaldfærsla að fjárhæð 750 milljónum króna vegna sáttar í uppgjörsmáli bankans við einn af föllnu viðskiptabönkunum.

Handbært fé félagsins nam tæplega 24 milljörðum króna í lok júní og jókst um 8 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins. Útlán bankans nema um 11,5 milljörðum króna.

Innlán viðskiptavina MP banka námu 38 milljörðum króna í lok tímabilsins og lækkuðu um 4 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins.

Í árshlutareikningnum kemur fram að MP banki á 16 dótturfélög sem öll eru tekin með í samstæðuuppgjöri bankans. Þau eru í Úkraínu, Litháen, Íslandi og Bretlandi. Fjórir aðilar eiga meira en 10% hlut í bankanum. Margeir Pétursson og félög undir hans yfirráðum heldur 26,0% hlut, BYR sparisjóður á 12,3%, Sigurður Gísli Pálmason og félög tengd honum eiga 11,7% og þá á Jón Pálmason og félög tengd honum 11,6%.

Tilkynningu MP banka má lesa hér .