Tap MP banka á síðasta ári nam 477 milljónum króna á síðasta ári. Þetta er töluverður viðsnúningur á milli ára en hagnaður bankans nam 251 milljón króna árið 2012. Fram kemur í afkomutilkynningu að niðurstaðan skýrist af því að viðskiptavild bankans upp á 772 milljónir króna hafi verið afskrifuð.

Fram kemur í tilkynningu MP banka að gjaldfærður hafi verið umtalsverður kostnaður á fjórða ársfjórðungi vegna hagræðingaraðgerða og skipulagsbreytinga. Að teknu tilliti til þessara gjaldfærslna var hagnaður af reglulegri starfsemi upp á 346 milljónir króna í fyrra.

Hreinar þóknanatekjur MP banka námu 1.754 milljónum króna í fyrra og var það 26% vöxtur á milli ára. Hreinar rekstrartekjur námu á sama tíma 3.604 milljónum króna borið saman við 3.994 milljónir árið 2012. Lækkunin skýrist einkum af lægri fjárfestingartekjum á árinu.

Í afkomutilkynningu MP banka segirað eigið fé bankans nam undir lok síðasta árs 5.037 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall hækkaði um 3,4 prósentustig frá upphafi til loka árs og var 14,2% um áramót. Eiginfjárhlutfallið stóð í stað frá lokum september til loka desember þrátt fyrir að afkoma hafi færst úr 590 milljóna króna hagnaði eftir fyrstu 9 mánuði ársins í 477 milljón króna tap fyrir árið í heild.