MP Banki og Skilanefnd SPRON hafa náð samkomulagi um kaup MP Banka á Netbankanum og útibúaneti SPRON.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu en þar kemur fram að MP Banki hyggst reka áfram undir nafni SPRON fyrri höfuðstöðvar SPRON við Skólavörðustíg og útibú á Seltjarnarnesi og í Borgartúni. Starfsemi Netbankans verður haldið áfram í óbreyttri mynd.

Þá hefur MP Banki skuldbundið sig til að bjóða að lágmarki 45 starfsmönnum SPRON og Netbankans starf.

Í tilkynningunni kemur fram að verðmæti tilboðsins nemur tæplega 800 milljónum króna. Innlán og efnahagur SPRON og Netbankans hafa þegar flust yfir til ríkisbanka, en viðskiptavinir geta nú flutt sig til baka frá og með næsta mánudegi.

Samhliða er gerður samningur um að þjónusta við lántakendur hjá SPRON og NB.is fari fram í þeim útibúum sem munu halda áfram rekstri. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppnisstofnunar.

Jafnframt er fyrirvari um að náist að endursemja við leigusala húsnæðis viðkomandi útibúa.

Eins og kunnugt er hefur MP Banki hf. viðskiptabankaleyfi í eigin nafni og felst í því ríkisábyrgð á innistæðum viðskiptavina skv. yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands. MP Banki hefur ákveðið að hefja almenna viðskiptabankastarfsemi til að veita öflugan valkost við ríkisbankakerfið.

„Yfirtaka á Netbankanum og útibúaneti SPRON er mikilvægur áfangi í þá átt að sögn forsvarsmanna MP Banka. MP Banki býður alla viðskiptavini SPRON og Netbankans velkomna í viðskipti,“ segir í tilkynningunni.