Breska fjármálatímaritið World Finance hefur valið MP banka fremstan í flokki á sviði eignastýringar á Íslandi 2014.

World Finance útnefnir árlega fyrirtæki fyrir framúrskarandi árangur og í ár hlaut MP banki viðurkenningu sem „Best Investment Management Company“ á Íslandi. Í tilkynningu frá MP banka segir að við mat á árangri horfi tímaritið meðal annars til gagnsæis, áreiðanleika, gæða þjónustu, stjórnunarhátta og áhættumats.

Meðal þeirra sem hljóta sömu viðurkenningu eru DNB Asset Management í Noregi, Swedbank Robur í Svíþjóð, ATP Private Equity Partners í Danmörku og T. Rowe Price í Bandaríkjunum.

Í tilkynningunni er haft eftir Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra eignastýringar MP banka, að hann sé stoltur af árangrinum. Eignastýring hafi frá upphafi verið ein af meginstoðum í starfsemi MP banka og verðlaunin séu hvatning til að halda áfram á sömu braut.