Slitastjórn Glitnis hefur samið við fyrirtækjaráðgjöf MP banka um fjármálaráðgjöf samkvæmt samkvæmt upplýsingum frá slitastjórn Glitnis. MP banki kemur inn sem íslenskur  ráðgjafi slitastjórnarinnar. Helstu verkefni MP snúa að vinnu vegna fyrirhugaðra nauðasamninga Glitnis og tillögum til Seðlabankans þar um þar sem óskað er eftir undanþágum frá gjaldeyrislögum.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins leitaði slitastjórn Glitnis eftir tilboðum frá nokkrum fjármálafyrirtækjum hér á landi, utan stóru bankanna þriggja, um að taka að sér verkefnið. Í kjölfarið var ákveðið að ganga til samninga við MP banka.

Hlutverk MP banka samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins felst meðal annars í því að vera til ráðgjafar um hvernig nauðasamningar geti uppfyllt ákvæði laga og gangi ekki gegn fjármálastöðugleika á Íslandi. S.s. að koma að ráðgjöf um nauðasamninga til að leysa þann vanda sem slitastjórnin stendur frammi fyrir til að hægt sé að ganga frá slitum þrotabúsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.