Friðrik Einarsson og Christian Uttrup hjá MP Banka hafa verið ráðnir skiptastjórar Samsons eignarhalds til aðstoðar við mat og greiningu á framkomnum tilboðum í Novator Properties Ltd.

MP Banka var enn fremur falið af skiptastjóra að taka að sér sölumeðferð á eignarhlut þrotabúsins í félaginu ásamt öllum þeim réttindum og skuldbindingum sem því fylgja.

Í ársreikningi Samsons var eignin í Novator Properties (NP) metin á 14,3 milljarða króna. Samson keypti í NP í upphafi árs 2008 þegar eign í Samson Properties var seld NP með nokkrum hagnaði, að því er segir í skýrslu skiptastjóra Samsons ehf.

Þar kemur fram að söluverð eignarhlutarins er metið mun lægra en í bókum félagsins. Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra er verið að skoða leiðir til að vernda eignina og því hugsanlegt að kröfuhafar og þrotabúið eigi hana áfram.