MP banki tilkynnti í gær að bankinn bjóði nú óverðtryggð íbúðalán sem bera 5,25 breytilega vexti fyrir allt að 60% veðhlutfall eignar. Einnig eru boðin viðbótarlán sem nema 60-80% veðhlutfalls og bera 6,75% breytilega vexti.

Mikil aukning hefur orðið á óverðytrggðum lántökum einstaklinga og bjóða allir viðskiptabankarnir óverðtryggð lán. Íslandsbanki og Arion banki bjóða einir óverðytrggð lán á föstum vöxtum. Hjá Íslandsbanka eru fastir vextir til 3 ára og eru vextirnir 9,1%. Lánshlutfall er 70% af markaðsvirði eignar. Íslandsbanki býður einnig lán á breytilegum vöxtum, og eru vaxtakjör þá 5,25%.

Arion banki hóf í september að bjóða óverðtryggð íbúðalán á föstum vöxtum til fimm ára. Vaxtakjör hjá Arion fyrir allt að 60% markaðsvirði eignar er 6,45%. Viðbótarlán, upp í allt að 80% af markaðsvirði, ber 7,55% vexti.

Landsbankinn býður breytilega vexti og hámarksveðhlutfall 70% af markaðsvirði eignar. Vextirnir eru í dag 5,75% og er vaxtaákvörðun tekin í hverjum mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum.