Stefnt er að því að halda áfram með endurskipulagningu MP banka þrátt fyrir að Samherji  og nokkrir lífeyrissjóðir hafi dregið sig út úr væntanlegum kaupendahóp. Leitað verður að öðrum fjárfesti til að koma í stað þeirra sem hættir eru við.

Þetta segir Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, samtali við Viðskiptablaðið. VÍS á 6,67% hlut í MP banka í dag og hafði ætlað að verja þann eignarhlut í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu.

Guðmundur segist ekki geta svarað því á þessari stundu hvort útdráttur Samherja muni hafa áhrif á það hvernig VÍS muni nálgast endurskipulagningu MP banka. „Ef þessari endurskipulagningu lýkur þá ætlum við ekki að breyta því sem við höfum áður gert. Það eru aðrir sem leiða þetta. Miðað við síðustu fréttir sem ég hef af málinu þá ætla þeir að leita að öðrum í staðinn.“

Tilkynnt var í febrúar að félag í eigu Skúla Mogensen, Samherji, tryggingafélög, lífeyrissjóðir og nokkrir fjársterkir einstaklingar munu tilkynntu í febrúar myndu eignast þorra hlutafés í MP banka gegn fimm milljarða króna eiginfjárframlagi. Viðskiptablaðið hafði fjallað ítarlega um viðræður þess efnis vikurnar áður. Gert var ráð fyrir því að ferlinu myndi ljúka í febrúar en það dróst á langinn.