Stjórnir kauphallanna í Tallinn í Eistlandi, Ríga í Lettlandi og Vilníus í Litháen hafa samþykkt umsókn MP Fjárfestingarbanka hf. um aðild að kauphöllunum, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Bankinn er þannig fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið með aðild að kauphöllunum og er tólfta fjármálafyrirtækið með aðild að öllum mörkuðum Eystrasaltsríkjanna.

Norræna fyrirtækið OMX, sem hefur lýst yfir áhuga á að sameinast Kauphöll Íslands, starfrækir kauphallirnar í Eystrasaltsríkjunum. Fyrirtækið starfrækir einnig kauphallirnar í Stokkhólmi, Helskinki og Kaupmannahöfn.

MP Fjárfestingarbanki var stofnaður 1999 og fékk starfsleyfi sem fjárfestingabanki árið 2003. MP Fjárfestingarbanki hefur starfsleyfi til rekstrar lánafyrirtækis og er aðili að Kauphöll Íslands. Bankinn mun stunda viðskipti í kauphöllum Eystrasaltsríkjanna undir kennileitinu MPB.

Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri MP Fjárfestingarbanka, segir aðild að kauphöllum Eystrasaltsríkjanna veiti aðgang að mjög áhugaverðum tækifærum.

?Aðildin styrkir starfsemi bankans á erlendri grund og opnar tækifæri fyrir fjárfesta og fyrirtæki sem vilja hasla sér völl á þessu svæði. Við höfum verið virk í Austur-Evrópu síðustu misserin og aðildin styrkir okkar viðskiptavini á þeim slóðum enn frekar. Aðildin er ennfremur í samræmi við stefnu bankans um vöxt erlendis," segir Styrmir.

Í tilkynningunni segir að MP Fjárfestingarbanki veitir skýrt afmarkaða fjármálaþjónustu. Bankinn sinnir eignastýringu fyrir ólíka hópa fjárfesta, annast miðlun verðbréfa á innlendum og erlendum mörkuðum og fæst við margvísleg verkefni sem tengjast þjónustu og ráðgjöf til fyrirtækja, sveitarfélaga og fagfjárfesta.
Hjá bankanum starfar hópur sérfræðinga með víðtæka menntun og starfsreynslu.

MP Fjárfestingarbanki hefur starfsleyfi í Eystrasaltslöndunum þremur, undirbýr opnun útibús í Litháen og rekur útibú í Englandi.
Með aðild MP Fjárfestingarbanka eru aðilar að kauphöllum Eystrasaltsríkjanna orðnir 41 talsins.