MP Fjárfestingabanki hefur opnað skrifstofu í Vilnius í Litháen í samvinnu við íslenska og erlenda  fjárfesta að því er kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag. Þar starfa nú þrír starfsmenn við fyrirtækjaráðgjöf og fjárfestingar. Einnig er unnið að því að setja upp samskonar skrifstofu í Úkraínu sem hefði svipuðu hlutverki að gegna. Að sögn Sigurðar Valtýssonar, framkvæmdastjóra MP Fjárfestingabanka, er ekki um að ræða útibú frá bankanum heldur sjálfstæðar einingar.

Það er Margeir Pétursson, stjórnarformaður og stofandi MP Fjárfestingabanka, sem mest hefur komið að opnun þessarar starfsemi en hann hefur víðtæk sambönd í Sovétríkjunum fyrrverandi og hefur dvalið þar langdvölum að undanförnu. Að sögn Sigurðar er MP Fjáfestingarbanki einnig með til skoðunar frekari útrás bankans. Þess má geta að skrifstofa MP Fjárfestingabanka í Vilnius kom að fyrirtækjaráðgjöf í tengslum við tilboð fjárfestingafélagsins Fengs í Lithuanian Airlines sem opnað var fyrir skömmu.

Byggt á frétt í Viðskiptablaðinu í dag.