Fjármálaeftirlitið hefur veitt MP Fjárfestingarbanka viðskiptabankaleyfi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MP Fjárfestingarbanka en samkvæmt henni er ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á starfsemi bankans á grundvelli hins nýja leyfis.

„Leyfið gerir bankanum kleift að taka á móti innlánum á þeim mörkuðum sem bankinn starfar á og mun bankinn þegar hefja viðtöku innlána á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að innlán hjá MP Fjárfestingarbanka njóta sömu tryggingar og innstæður hjá öðrum fjármálafyrirtækjum.

Leyfið gildir frá 10. október 2008 og er veitt í fyrstu til 31. desember 2008.

MP Fjárfestingarbanki hf. var stofnaður árið 1999 og fékk starfsleyfi sem fjárfestingarbanki árið 2004.