MP Fjárfestingarbanki hf. er að hefja samstarf við Raiffeisen Capital Management, RCM, í Austurríki og hyggst bjóða verðbréfasjóði félagsins til sölu hér á landi að því er segir í tilkynningu félagsins.

?MP Fjárfestingarbanki hefur starfað í Austur-Evrópu í nokkur ár og markað sér þá stefnu að auka starfsemi sína þar enn frekar. Samstarfið við Raiffeisen Capital Management gefur bankanum kost á að bjóða viðskiptavinum okkar framúrskarandi sjóði sem fjárfesta í Austur- Evrópu í gegnum eignastýringarfyrirtæki sem hefur gríðarlega reynslu og þekkingu á svæðinu,? segir Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri MP Fjárfestingarbanka hf. í tilkynningu félagsins

Sérfræðingar frá RCM munu kynna innlendum fjárfestum þessa sjóði í vikunni, fjalla almennt um Mið- og Austur-Evrópu, þróun markaða og fjárfestingatækifæri. Tibor Schindler, helsti sérfræðingur RCM í mörkuðum Austur-Evrópu, kynnir félagið en hann hefur stjórnað uppbyggingu og fjárfestingum þess í Austur-Evrópu með mjög góðum árangri og hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af svæðinu.

Raiffeisen Capital Management var stofnað 1985 og er eignastýringarfyrirtæki Raiffeisen International. RCM er með 22% markaðshlutdeild í Austurríki, um 250 starfsmenn og rekur hátt í 50 sjóði. Raiffeisen á rætur að rekja allt aftur til ársins 1862 og rekur 870 útibú í öllum helstu löndum Austur-Evrópu og er mjög áberandi þar enda með öflugt viðskiptanet, viðskiptabankaþjónustu, tryggingar, eignaleigur og eignastýringu á sínum snærum. Styrkur félagsins liggur í nálægð við markaðinn í hverju landi.