MP Fjárfestingarbanki hf. hefur fengið leyfi til reksturs útibús í Vilnius í Litháen og verður það opnað formlega á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Útibúið í Litháen veitir viðskiptavinum aukin tækifæri á ört vaxandi markaðssvæði en mikill vöxtur hefur einkennt Eystrasaltslöndin undanfarið segir í frétt félagsins.

Þar kemur fram að markmiðið með opnun útibúsins er að veita samskonar fjármálaþjónustu í Litháen og MP Fjárfestingarbanki hf. veitir viðskiptavinum sínum hér á landi, þ.e. verðbréfamiðlun, hlutabréfaviðskipti, fyrirtækjaráðgjöf, lánastarfsemi og eignastýringu.

Útibússtjóri verður Dmitrijus Dutovas, Lithái sem hefur umfangsmikla reynslu á fjármálamörkuðum í Eystrasaltslöndunum og Austur-Evrópu. Hann hóf störf hjá MP Fjárfestingarbanka í janúar 2007 en áður gegndi hann stöðu forstöðumanns markaðsviðskipta hjá verðbréfafyrirtækinu BVP í Litháen í tvö ár og var stjórnarformaður í fimm ár. Starfsmenn útibúsins eru nú þegar fimm talsins.

Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri MP Fjárfestingarbanka hf., segir að opnun útibús í Litháen styrki mjög starfsemi bankans í Eystrasaltslöndunum. ?Skrifstofan veitir fjárfestum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á þessu svæði aukin tækifæri. Undanfarin ár hefur starfsemi bankans vaxið mjög ört á þessu svæði og opnun útibúsins var því rökrétt framhald og mun styðja enn frekar við starfsemi bankans. Útibúið mun veita fjárfestum í Eystrasaltsríkjunum og á Norðurlöndunum fjármálaþjónustu með áherslu á fjárfestingar á fjármálamörkuðum í Austur-Evrópu. Bankinn fékk aðild að kauphöllum Eystrasaltsríkjanna þriggja í júlí á síðasta ári og var fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið með aðild að þessum kauphöllum. Starfsemin hefur farið mjög vel af stað og er bankinn nú þegar sjötti veltumesti markaðsaðilinn í kauphöllum landanna samanlögðum (m.v. desember 2006). Mikil uppbygging hefur verið í Eystrasaltslöndunum undanfarin ár og fyrirsjáanlegt er að sú uppbygging muni halda áfram af krafti. Við sjáum mikil tækifæri á svæðinu næstu árin þar sem áfram er búist við miklum hagvexti og mikilli aukningu í einkaneyslu og mun það styðja áframhaldandi vöxt á fjármálamörkuðum," segir Styrmir í fréttinni.

MP Fjárfestingarbanki hf. er ört vaxandi og framsækið fjármálafyrirtæki sem hefur lagt áherslu á smærri markaði og nýmarkaði í Evrópu með mjög góðum árangri. Bankinn er aðili að OMX Nordic Exchange á Íslandi og kauphöllum Eystrasaltslandanna. Bankinn sinnir eignastýringu fyrir einstaklinga og fagfjárfesta, annast miðlun verðbréfa á innlendum og erlendum mörkuðum og fæst við margvísleg verkefni sem tengjast þjónustu og ráðgjöf til fyrirtækja, sveitarfélaga og fagfjárfesta. Hjá bankanum starfar hópur sérfræðinga með víðtæka menntun og starfsreynslu. Bankinn leiddi kaupin á Bank Lviv í Úkraínu og er einn eigenda hans. Aðalskrifstofa bankans er í Reykjavík en hann rekur útibú í London og opnar nú útibú í Litháen sem mun veita fjárfestum í öllum Eystrasaltslöndunum fjármálaþjónustu.