MP Fjárfestingarbanki hf. hefur stofnað fjárfestingafélagið Aurora Holding hf. en tilgangur þess eru fjárfestingar í Eystrasaltsríkjunum og Mið- og Austur-Evrópu. Aurora mun jafnframt hafa heimild til að fjárfesta í félögum í öðrum löndum sem eru með stóran hluta af starfsemi sinni í ríkjum Austur-Evrópu segir í frétt félagsins.

Framkvæmdastjóri og starfsmenn Aurora Holding verða með aðsetur í Vilnius, höfuðborg Litháens.

Hlutafé félagsins er 30 milljónir evra en fjárfestar skráðu sig fyrir öllum hlutum í fyrsta hluta lokaðs útboðs. Aurora Holding hf. er íslenskt félag með íslenskri stjórn en stjórn félagsins var kosin á hluthafafundi föstudaginn 12. janúar 2007. Stjórn félagsins skipa Sigurbjörn Einarsson, sem er formaður, Aðalsteinn Karlsson, Ágúst Sindri Karlsson, Jón Hallur Pétursson og Örn Andrésson. Aurora Holding hefur gert rekstrarsamning við MP Fjárfestingarbanka hf. um umsjón bókhalds, bakvinnslu, lögfræðiþjónustu o.fl.

Framkvæmdastjóri Aurora Holding verður Litháinn Donatas Frejus en hann hefur átta ára starfsreynslu á fjármálamarkaði og er með yfirgripsmikla þekkingu á fjármálamörkuðum í Eystrasaltsríkjunum og Austur-Evrópu segir í fréttinni.  Áður en hann gekk til liðs við Aurora var hann sjóðstjóri hjá verðbréfafyrirtækinu Finasta Investment Management sem er leiðandi fjármálafyrirtæki í Litháen. Donatas er með MSc-gráðu í alþjóðlegum verðbréfaviðskiptum, fjárfestingum og bankastarfsemi frá University of Reading. Nánasti samstarfsmaður hans verður Petras Kudaras sem hefur þriggja ára starfsreynslu á fjármálamarkaði og var síðast sjóðstjóri hjá Finasta Investment Management. Petras er með MSc-gráðu í hagfræði frá háskólanum í Vilnius.

Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri MP Fjárfestingarbanka hf., segir að stofnun Aurora Holding hf. gefi fjárfestum tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu metnaðarfulls fjárfestingarfélags sem mun fjárfesta í Eystrasaltsríkjunum og Mið- og Austur-Evrópu. ?Aurora mun fyrst um sinn einbeita sér að Eystrasaltsríkjunum, Rússlandi og Úkraínu en vel verður fylgst með öðrum mörkuðum Austur-Evrópu. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir tækifærum á þessu markaðssvæði sem einkennst hefur af örum vexti síðastliðin ár og miklum tækifærum fyrir fjárfesta. Framkvæmdastjóri félagsins hefur yfirgripsmikla þekkingu á fjármálamörkuðum Eystrasaltsríkjanna og Austur-Evrópu. Jafnframt hefur hann mikla reynslu í fjárfestingum og greiningu tækifæra á svæðinu. Hagvöxtur á þessu markaðssvæði hefur verið gríðarlega sterkur og áfram eru væntingar um töluverðan hagvöxt. Breytingar sem hafa orðið á stjórnarfari þessara ríkja hafa beint sjónum fjárfesta að miklum tækifærum sem eru til fjárfestinga á þessu stóra markaðssvæði. Kerfisbreytingin sem orðið hefur í ríkjum Austur-Evrópu og Eystrasaltsríkjunum mun líklega leiða af sér hagvöxt sem á eftir að verða meiri en í Vestur-Evrópu til lengri tíma. Þetta gerir fjárfestingar í þessum ríkjum mjög áhugaverðar þar sem til dæmis má vænta mikils vaxtar í fjármálageira og einkaneyslu,? segir Styrmir í fréttinni.


MP Fjárfestingarbanki hf. er fjármálafyrirtæki sem hefur haft fjárfestingarbankaleyfi frá árinu 2003, er aðili að OMX Nordic Exchange á Íslandi og kauphöllum Eystrasaltsríkjanna. Bankinn sinnir eignastýringu fyrir einstaklinga og fagfjárfesta, annast miðlun verðbréfa á innlendum og erlendum mörkuðum og fæst við margvísleg verkefni sem tengjast þjónustu og ráðgjöf til fyrirtækja, sveitarfélaga og fagfjárfesta. Hjá bankanum starfar hópur sérfræðinga með víðtæka menntun og starfsreynslu. Bankinn er einn af eigendum Bank Lviv í Úkraínu, rekur skrifstofu í London og er nú að opna útibú í Litháen