MP banki skilaði inn tilkynningu til hlutafélagaskrár í lok apríl þar sem kveðið er á um lækkun hlutafjár úr 5,85 milljörðum króna í tæplega 1,2 milljarða króna. Samkvæmt tilkynningunni verður 829 milljónum króna ráðstafað til jöfnunar taps en um 3,85 milljarðar verða lagðir í sérstakan sjóð sem einungis má nota samkvæmt ákvörðun hluthafafundar. Á sama tíma hefur stjórn bankans verið
veitt heimild til fimm ára til að hækka hlutafé hans að hámarki um 3 milljarða króna með áskrift nýrra hluta.

Er nú heimilt að auka hlutafé um einn milljarð króna til  að uppfylla kaupréttarsamninga bankans en einnig er heimild til næstu fimm ára fyrir útgáfu áskriftarréttinda upp að 1,5 milljörðum króna að nafnvirði og fyrir töku skuldabréfaláns með breytirétti sem veitir lánardrottni rétt til að breyta kröfum í hlutafé. Hámarksfjárhæð lántökunnar er 1,5 milljarðar króna. Samanlögð nýting þessara hlutafjárhækkana má þó ekki fara umfram þrjá milljarða króna.