MP banki greiðir fyrir hlutabréf í Íslenskum verðbréfum með hlutabréfum í MP banka, að því er kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Þar kemur fram að tilskilinn meirihluti eigenda Íslenskra verðbréfa hafi gengið að skilmálum tilboðsins. Kaupin eru með fyrirvara um áreiðanleikakannanir og endanlegt samþykki hluthafa og eftirlitsaðila. Stefnt er að skráningu MP banka á hlutabréfamarkað á næsta ári.

Hluthafar MP banka eru í dag um 50 talsins. Hluthafar í sameinuðu félagi verða á sjöunda tug talsins, þar af 5 lífeyrissjóðir. Mun enginn hluthafi fara með yfir 10% eignarhlut í bankanum í kjölfar samrunans við Íslensk verðbréf.

Í tilkynningunni segir að kaupin muni styrkja þjónustugrunn félaganna og að töluverðir samlegðarmöguleikar felist bæði á tekju- og kostnaðarhlið þessara tveggja fjármálafyrirtækja. Efling starfsemi MP banka á Norðurlandi og sameinað þjónustuframboð muni auka valmöguleika viðskiptavina beggja félaga. Sameiginlega verða félögin tvö með um 190 milljarða eigna í stýringu.

Kaupin eru samkvæmt tilkynningunni í samræmi við aðrar fjárfestingar MP banka sem einkum hafa beinst að því að styrkja stöðu hans í eignastýringu. Kaupin á Íslenskum verðbréfum eru hins vegar stærri í sniðum en fyrri fjárfestingar.

Áform eru um að efla og breikka þá þjónustu sem Íslensk verðbréf hafa veitt í höfuðstöðvum sínum á Akureyri, meðal annars með opnun útibús þar nyrðra.