MP banki hefur gert tilboð í allt hlutafé í Íslenskum verðbréfum hf. og hefur tilskilinn meirihluti eigenda félagsins gengið að skilmálum tilboðsins.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá bankanum sem send var út rétt í þessu. Ekkert kemur þar fram um kaupverð eða aðra skilmála kaupsamningsins, en boðað hefur verið til blaðamannafundar á Akureyri vegna málsins síðar í dag.

Hluthafar Íslenskra verðbréfa voru fyrir kaupin ellefu talsins og áttu sex þeirra meira en 5% hlut. Þeir voru íslandsbanki með 27,5%, Íslensk eignastýring með 21,8%, Stapi lífeyrissjóður með 15%, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga með 14,5%, Lífeyrissjóður Vestfirðinga með 10,3% og Eignasafn Seðlabanka Íslands með 6,4%. Hlutir Íslandsbanka og ESÍ hafa verið í söluferli frá því í febrúar í fyrra.