MP Banki hefur látið hanna fyrir sig nýtt lógó og þá hefur heimasíða bankans verið uppfærð í takt við hið nýja útlit.

Nýtt útlit banka væri í raun ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að þetta gefur til kynna að MP Banki hafi fallið frá fyrri hugmyndum um að skipta um nafn. Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið. MP banki verður áfram MP.

Vitað er að sú hugmynd hafði verið rædd innan bankans að breyta nafni hans í Verzlunarbankinn – og að með zetu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun nóvember sl. að Títan, fjárfestingafélag Skúla Mogensen sem jafnframt er stærsti eigandi MP Banka, hefði tryggt sér lénin verslunarbanki.is og verzlunarbanki.is.

Sem fyrr segir virðist þó allt benda til þess að með nýju merkingum á húsnæði bankans og heimabanka ætli eigendur bankans sér hins vegar að festa MB Banka í sessi undir þeim merkjum.

Vefur MP Banka með nýju útliti.
Vefur MP Banka með nýju útliti.