Óformlegar sameiningarviðræður standa nú yfir milli Straums og MP banka. Undirbúningur hefur staðið yfir undanfarið og stórir eigendur í hluthafahópi báðum megin borðsins líta sameiningu jákvæðum augum og telja hana nauðsynlega. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins munu hluthafar í MP banka hafa lagt fram tilboð um sameiningu í desember, sem var hafnað af Straumi.

Þorsteinn Pálsson, formaður stjórnar MP banka, segir stjórnendur og hluthafa bankans líta til sameiningar á fjármálamarkaði. „Við höfum verið opnir fyrir því og höfum lengi talið það vera nauðsynlegt,“ segir Þorsteinn.

Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums tekur í sama streng en segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé hægt að tala um formlegar viðræður milli MP banka og Straums á þessu stigi. Engu að síður séu nú í gangi þreifingar. „Við lítum á það jákvæðum augum að auka hagkvæmni í þessu kerfi og einn af þeim kostum sem augljóslega liggja fyrir í þeim efnum er MP banki.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .