Nafni MP sjóða hf. hefur verið breytt í Júpíter rekstrarfélag hf. Í tilkynningu segir að með því hafi verið stigin enn frekari skref til að tryggja sjálfstæði og óhæði félagsins. Það ferli hófst sumarið 2010 þegar nýir starfsmenn og meðeigendur komu að félaginu.

„Júpíter rekstrarfélag hf. var stofnað af MP banka hf. árið 2006. Árið 2010 var ráðist í breytingar í þeim tilgangi að skapa félaginu trygga stöðu sem sjálfstætt og óháð rekstrarfélag verðbréfasjóða. Ákvörðun bankans um að efla sjálfstæði félagsins hefur reynst vel og hefur aukið samkeppnishæfni Júpíters þar sem fjárfestar leita í vaxandi mæli til sjálfstæðra rekstraaðila með ávöxtun fjármuna. MP banki er áfram hluthafi og söluaðili sjóða Júpíters.

Aukin starfsemi hefur fylgt breytingunum og hafa tveir nýir verðbréfasjóðir hafið rekstur. Þar með eru fjórir verðbréfasjóðir í rekstri Júpíters. Þá tók fagfjárfestasjóðurinn LEV-GB til starfa í júní sl. Sjóðirnir fjárfesta einungis í ríkistryggðum eignum og hafa verið skráðir rafrænt,“ segir í tilkynningu.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Júpíters segir í tilkynningu að breytingarnar skili þegar árangri og aukinni eftirspurn. „Frá því að nýir aðilar komu að félaginu síðastliðið sumar hafa eignir í stýringu aukist verulega. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á félaginu hafa þannig skilað tilætluðum árangri nú þegar. Júpíter hefur nú trygga stöðu sem óháð, sjálfstætt rekstrarfélag verðbréfasjóða sem vinnur að sameiginlegum hagsmunum sjóðfélaga og rekstraraðila.“