Greiningardeild MP Banka gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs mælist 0,8% hærri í maí en í apríl. Gangi það eftir eykst tólf mánaða verðbólga í 3,2% (var 2,8% í apríl). Í fréttabréfi greiningardeildarinnar kemur fram að tæpur helmingur hækkunarinnar í mánuðinum stafi  af tveimur þáttum; annars vegar gjaldskrárhækkun Orkuveitunnar sem tekur gildi í maí og hins vegar leiðréttingu á vísitölu byggingarkostnaðar. „Þessir tveir þættir valda um 0,35% hækkun VNV í mánuðinum," segir þar.

Þá hafi gengi krónunnar gefið aðeins eftir frá síðasta mánuði. „Það hefur áhrif á innflutningsverð og meðal annars hefur bílverð hækkað nokkuð í mánuðinum. Fasteignaverð virðist enn á uppleið en það hefur hækkað um 2% síðustu þrjá mánuði. Á móti því kemur vaxtalækkun á fasteignalánum en sumir bankar hafa fylgt Íbúðalánasjóði eftir og  lækkað vexti íbúðalána hjá sér.  Við reiknum þó með að verðhækkanir vegi enn þyngra og reiknuð húsaleiga hækki í mánuðinum," segir í fréttum greiningardeildar.

Þegar allt sé tekið saman sýnist starfsmönnum greiningardeildar að vísitala neysluverðs gæti hækkað um 0,8% þegar Hagstofan birtir næstu mælingu þann 25. maí.

Í lok apríl kom fram hjá Hagstofunni að síðastliðna tólf mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 2,8% og vísitalan án húsnæðis um 2,7%.