Mærsk Olie og Gas AS (MOG), dótturfélag dönsku fyrirtækjasamsteypunnar A.P. Møller-Mærsk hefur keypt stærstan hluta olíu- og gasréttinda bandaríska félagsins Kerr-McGee í breska hluta Norðursjávarins. Mun þetta vera einn stærsti samningur af þessum toga sem gerður hefur verið um olíuréttindi í Norðursjónum.

Samningurinn gengur út á kaup á tíu vinnslusvæðum Kerr-McGee og þar af eru fimm í fullri vinnslu. Þar starfa um 500 manns við framleiðslu á meira en 60.000 tunnum af olíu á dag. Þá felur samningurinn í sér yfirráð yfir nokkrum minni olíu og gaslindum sem félagið hefur fundið ásamt rannsóknaráætlun. Danska félagið yfirtekur einnig skrifstofur bandaríska félagsins í Aberdeen og London. Þegar fréttir af kaupunum spurðust út hækkuðu hlutabréf í A.P. Møller-Mærsk strax um 1%.

Samkvæmt samningnum greiðir Maersk 2,95 milljarða dollara (rúmlega 187 milljarða ísl. króna) fyrir vinnsluréttindin og miðast viðskiptin við 1. júlí 2005. Er samningurinn háður samþykki breskra yfirvalda sem og eftirlitsaðila Evrópusambandsins. Gert er ráð fyrir að athugunarferli verði lokið 1. október nk. Búist er við að kaupin hafi tiltölulega lítil en samt jákvæð áhrif á afkomu A.P. Møller-Mærsk A/S á þessu ári ef miðað er við núverandi olíuverð.

Mærsk Olie og Gas AS er miðlungsstórt olíufélag með höfuðstöðvar í Danmörku. Það er með starfsemi í 13 löndum og talsverða olíuframleiðslu í Danmörku, Qatar og í Alsír. Framleiðir félagið rúmlega 500 þúsund tunnur af olíu á dag um 1.000 rúmmetra af gasi. Starfsmenn félagsins eru um 1.500 talsins.

Forsvarsmenn Maersk segja kaupin á meirihluta af starfsemi Kerr-McGee í Bretlandi vera lið í að styrkja starfsemi félagsins í Norðursjó. Reynsla og þekking innan Kerr-McGee komi þar að góðum notum ekki síst við rannsóknir og þróunarvinnu.