Mjólkursamsalan er eins og stóri feiti strákurinn sem spilar fótbolta í garðinum með strákunum. Hann á bæði boltann, mörkin og garðinn. Eina í stöðunni er fyrir hina strákana að fara í næsta garð. Nema það er enginn annar garður. Þetta sagði Þórarinn Egill Sverrisson, stjórnarformaður Örnu, á léttu nótunum á fundi Félags atvinnurekenda þar sem fjallað er um samkeppnismál.

Þórarinn sagði að vonlaust væri að keppa á verðum við MS, kannski væri hægt að keppa á gæðum ef menn væru klókir og góðir, örugglega væri hægt að keppa á sérstöðu. Fjölbreytni og faglegir yfirburðir væru mögulegir. MS hefði hinsvegar alla forgjöfina og notaði hana til hins ítrasta. Þetta leiðir smám saman til stöðnunar og vörum fækkar á markaði, sagði Þórarinn.