Hæstiréttur féllst í gær á beiðni Mjólkursamsölunnar (MS) um áfrýjunarleyfi í máli félagsins gegn Samkeppniseftirlitinu (SKE). Niðurstaðan felur í sér að málið verður flutt efnislega fyrir réttinum.

Fyrir tveimur mánuðum síðan staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að MS bæri að greiða 480 milljónir króna í sekt vegna samkeppnisbrota. Málið hefur velskt um í kerfinu síðan 2014 en þá sektaði SKE fyrirtækið um 370 milljónir króna.

Sjá einnig: 480 milljóna sekt MS stendur óhögguð

Eftir að áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi þá ákvörðun úr gildi tók SKE nýja ákvörðun og hækkaði sektina í 480 milljónir króna. 440 milljónir króna voru komnar til vegna brots á 11. grein samkeppnislaga og 40 milljónir króna vegna brots gegn 19. grein laganna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sem klofnaði í málinu, felldi úrskurðinn úr gildi að hluta þannig að 40 milljón króna sektin stóð eftir.

MS óskaði eftir áfrýjunarleyfi í málinu og byggði á því að dómur í málinu gæti haft verulegt fordæmisgildi um túlkun á samspili búvörulaga og samkeppnislaga. Þá reyndi í málinu í fyrsta sinn á túlkun samkeppnislaga á ákvæði er varðar brot gegn upplýsingaskyldu. Að auki hefði málið fordæmisgildi um endurskoðunar valds dómstóla gagnvart sektarákvörðunum samkeppnisyfirvalda og fjárhæð sektar vegna brots.

Að mati Hæstaréttar getur dómur í málinu haft verulegt fordæmisgildi um þau atriði sem reifuð voru í leyfisbeiðninni. Var því fallist á hana.