Áfrýjunarnefnd samkeppnismála kvað upp úrskurð sinn á mánudaginn í markaðsmisnotkunarmáli Mjólkursamsölunnar. Nefndin var klofin í afstöðu sinni til þess hvort MS hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja tengdum aðilum - Kaupfélagi Skagfirðinga og dótturfélagi þess, Mjólku II - hrámjólk á lægra verði en almennt var í boði fyrir aðra samkeppnisaðila. Staðfesti nefndin hins vegar að MS hafði framið alvarlegt brot með rangri upplýsingagjöf.

Var niðurstaðan því sú, að samstarf MS og KS hafi rúmast innan ákvæðis búvörulaga um undanþágu frá almennri samkeppni, en að MS hafi hins vegar með alvarlegum hætti brotið 19. grein samkeppnislaga um upplýsingaskyldu. Er fyrirtækinu því gert að greiða 40 milljónir króna í stjórnvaldssekt í stað 480 milljóna.

Skortur á samhengi

Að sögn Huldu Árnadóttur, lögmanns MS í málinu, skoðaði SKE ekki viðskiptin milli MS og tengdra aðila í samhengi ákvæð­isins í búvörulögum sem heimilar framleiðslusamstarf mjólkurafurðastöðva.

Markmið búvörulaga er m.a. að stuðla að aukinni hagkvæmni og tryggja viðunandi kjör fyrir bæði framleiðendur og neytendur, sem og nægjanlegt vöruframboð í landinu. 71. grein laganna, sem á að stuðla að því að markmið búvörulaga náist, heimilar afurðastöðvum í mjólkuriðnaði að sameinast og hafa með sér tiltekið samstarf um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.

Samkvæmt lögunum ákveður verðlagsnefnd annars vegar lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda og hins vegar heildsöluverð tiltekinna mjólkurvara.

„Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að vegna þess fyrirkomulags er sú framlegð sem tilteknar mjólkurvörur hafa ekki á valdi afurðastöðva heldur verð­ lagsnefndar búvöru, og hafa þær á grundvelli ákvarðana hennar mjög ólíka framlegð. Þessi stað­ reynd hefur það í för með sér að ef afurðastöðvar gera með sér samkomulag um verkaskiptingu er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að jafna framlegð þeirra á milli samhliða. Ella myndi markmið undanþáguákvæðisins ekki ná fram að ganga.

Með vísan til þessa byggði MS á því í málinu – og áfrýjunarnefnd samkeppnismála féllst með afgerandi hætti á – að ráðstafanir til jöfnunar á framlegð rúmist innan þeirrar heimildar sem afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er veitt á grundvelli 71. gr. búvörulaga,“ segir Hulda.

„Það er ekki um það að ræða að MS sé í allri sinni starfsemi undanþegin ákvæðum samkeppnislaga, eins og gjarnan hefur verið viðkvæðið, heldur gilda ákvæði samkeppnislaga um starfsemi fyrirtækisins þegar þessum undanþáguákvæðum sleppir.“

Samningur MS og KS dúkkaði ekki upp

Hulda segir að það sé misskilningur að gögnin, sem MS upplýsti SKE ekki um, hafi dúkkað upp í málflutningi fyrir áfrýjunarnefndinni. Um er að ræða samning um samstarfið milli MS og KS á grundvelli 71. greinar búvörulaganna.

„Þetta er gagn sem fylgdi kærunni til áfrýjunarnefndarinnar þegar málið fór fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála í fyrra skiptið. MS lagði þetta gagn fram um leið og hún varð þess áskynja að SKE væri ekki með það undir höndum. Í raun og veru skýrist það ekki fyrr en eftir að úrskurð­ urinn í fyrra málinu fellur. Það var búið að útskýra það fyrir SKE á fyrri stigum að verðlagningin væri hluti af þessu samstarfi og það var búið að vísa til samstarfsins margoft, þó svo að hinn eiginlegi samningur hafi ekki verið lagður fram, enda óskaði SKE ekki eftir frekari skýringum en þær sem veittar höfðu verið á samstarfinu,“ segir Hulda.

„MS er sektað fyrir að hafa ekki veitt fullnægjandi upplýsingar. Það er fjarri því að MS hafi leynt gögnum, vegna þess að þetta gagn styður miklu frekar málstað MS heldur en hitt. Þeir hefðu engan hag af því að leyna því. Það voru bara heiðarleg mistök að gagnið hafi ekki verið lagt fram fyrr,“ segir Hulda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .