Codland og Mjólkursamsalan (MS) hafa ákveðið að hefja samstarf um þróun á tilbúnum drykkjum þar sem hráefni frá báðum fyrirtækjum fá að njóta sín. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu MS. Codland hefur unnið að þróun kollagenvara úr íslensku þorskroði um nokkurra ára bil í samstarfi við Matís og með styrk Tækniþróunarsjóðs.

Í fréttinni segir að grundvöllurinn fyrir samstarfi fyrirtækjanna hafi myndast fyrir tilstuðlan Sjávarklasans og nýstofnaðs Matarklasa á Grandagarði. Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri MS, og Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codland, undirrituðu samstarfssamning á milli fyrirtækjanna á dögunum.