MS vonast til að ganga frá sérleyfissamningi við aðila í Japan um framleiðslu á skyri þar í landi á fyrstu mánuðum þessa árs að sögn Egils Sigurðssonar, stjórnarformanns MS.

„Það virðist vera mikill áhugi hjá þeim, á lágfitu próteinvörum sem ég kann ekki að skýra. Þeir eru nú margir ef þeir taka sig til og éta eitthvað af þessu,“ segir Egill.

Útflutningur gengið upp og ofan

Egill segir að sala MS á erlendri grundu hafi gengið misvel eftir mörkuðum. „Þar eigum við það að etja að mikil breyting hefur orðið á genginu.“

Hann nefnir Bretlandsmarkað þar sem MS hafi hafið innreið á árinu. Þar hefur mikil lækkun á pundinu samhliða gengisstyrkingu krónunnar sett strik í reikninginn.

„Þannig að það hefur ekki gengið eins vel og við ætluðumst til,“ segir Egill. MS hafi nýtt tollkvóta til að flytja út á milli 400 og 500 tonn af skyri til Bretlands í fyrra en vonir standi til að auka það um hundrað tonn á árinu.

„Það er að ganga vel í Finnlandi og Sviss en verr í Svíþjóð og að­ eins undir væntingum í Beneluxlöndunum þannig að það er sól og skuggi í þessu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .