Breska verslunarkeðjan Marks & Spencer (M&S) hefur ákveðið að opna 150 nýjar verslanir utan Bretlands, segir í frétt breska dagblaðsins The Guardian.

Vangaveltur eru um það hvort að Baugur Group-samstæðan muni sækjast eftir því að opna M&S-verslun á Íslandi, en fyrirtækið rekur til dæmis Debenhams-verslun hér á landi og í Stokkhólmi.

Baugur og FL Group seldu nýverið 40 milljón hluti í Marks & Spencer og talið er að samanlagður gengishagnaður af sölunni sé í kringum 6,5 milljarðar króna, en Baugur átti um 60% hlutanna og FL Group afganginn.

M&S hefur blómstrað síðan Stuart Rose tók við tók við fyrirtækinu og hefur gengi hlutabréfa félagsins hækkað töluvert síðustu tólf mánuði.

Fyrirtækið rak verslanir í Frakklandi, Þýskalandi og á Spáni áður er en Rose tók við, en þáverandi forstjóri M&S ákvað að loka búðunum árið 2001. Rose hefur sagt að ákvörðunin hafi verið mistök.

Flestar nýju verslananna munu ekki vera í eigu M&S, heldur reknar af sjálfstæðum eigendum í hverju landi fyrir sig. Hins vegar verða M&S-vörur til sölu í búðunum.