MS hefur kært niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í máli þar sem félagið var sektað um 370 milljónir króna fyrir alvarlega misnotkun á markaðsráðandi stöðu á mjólkurmarkaði. Félagið hefur því skotið niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Í fréttatilkynningu frá MS segir að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins byggi á fordæmalausri túlkun á búvörulögum. Þar fyrir utan hafi verið alvarlegir vankantar á málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins og að niðurstaða byggi á misskilningi á eðli viðskiptanna sem um ræddi.

Í tilkynningunni segir jafnframt að vegið sé að samstarfi afurðastöðva með niðurstöðunni og komið í veg fyrir frekari ábata fyrir neytendur og bændur.