Spjallforritinu Windows Live Messenger frá Microsoft verður lokað í Kína í október. Mun það marka endalok forritsins, sem hefur þjónað einstaklingum um allan heim síðastliðin 15 ár. Fjallað er um málið á vef BBC.

Forritið, sem upphaflega hét MSN Messenger, kom á markað 1999. Því var hins vegar lokað fyrir flesta notendur á síðasta ári, eftir að Microsoft keypti samskiptaforritið Skype.

Notendur í Kína héldu þó áfram að nota gamla forritið en munu í lok október þurfa að færa sig yfir í Skype, þegar lokunin tekur gildi. Einstaklingar í Kína, sem notað hafa Windows Live, hafa fengið tölvupóst þess efnis.

Árið 2009 var Windows Live notað af um 330 milljónum einstaklinga. Þegar Microsoft keypti Skype fyrir 8,5 milljarða Bandaríkjadala árið 2012 fór þó að halla undan fæti.