Robert Mugabe, forseti Simbabve, verður frambjóðandi stjórnarflokksins ZANU-PF í næstu forsetakosningum landsins sem fram fara árið 2018. Mugabe verður 93 ára í febrúar kemur.

Ritari flokksins, Ignatius Chombo, lét hafa eftir sér að Mugabe búi yfir þeirri þekkingu og sameiningarkrafti sem til þurfi til að leiða landið. Efnahagur landsins hefur verið mjög slæmur að undanförnu sem m.a. olli háværum mótmælum gegn ríkisstjórninni. Mugabe hefur áður lýst því yfir að hann vilji stjórna landinu þar til að hann deyr en sagðist þó opinn fyrir því að stíga til hliðar ef flokkurinn krefðist þess.

Forsetinn hefur farið með völdin í Simbabve frá því landið hlaut sjálfstæði árið 1980 og að undanförnu hafa borist fregnir þess efnis að flokksmenn ZANU-PF hafi áhyggjur af háum aldri hans og versnandi heilsu. Nú er hinsvegar ljóst að þær áhyggjur koma ekki í veg fyrir það að hann hljóti útnefningu flokksins.