Robert Mugabe, forseti Simbabve sakar erlend fyrirtæki um að hafa stolið auðæfum landsins stuttu eftir að hann tilkynnti að stjórnvöld í landinu myndu taka yfir stjórn á demantanámum í landinu.

Simbabve var áttundi stærsti demantaútflytjandi í heiminum árið 2014, en eins og áður sagði þá sakar forseti landsins erlenda aðila um að hafa arðrænt landið. Á síðustu árum hefur Simbabve fengið um það bil tvo milljarða Bandaríkjadala í skatttekjur vegna demantaiðnaðarins, en heildartekjur iðnaðarins í landinu námu um 15 milljörðum dala á sama tíma.

Erlend fyrirtæki geta einungis stundað námagröft í landinu í samstarfi við innlend fyrirtæki, en Mugabe gagnrýndi einnig hlutverk þeirra í þjófnaðinum.

Alþjóðlegt útflutningsbann var lagt á demanta frá Simbabve á árunum 2009 til 2011 eftir ítrekaðar fregnir af misnotkun verkamanna, þ. á m. drápum sem áttu að hafa verið framkvæmdar af her Simbave. Efnahagur Simbave hefur átt í miklum erfileikum síðan að ríkisstjórnin tók eignarhaldi á landbúnaði Simbabve, en hann var þá að mestu í eigu hvítra manna. Útflutningur landsins hrundi í kjölfarið og verðbólga á mánaðargrundvelli náði hámarki í 79.600.000.000% (79,6 milljarða prósent á mánuði) í nóvember 2008.