Einkahlutafélagið Drangar ehf skilaði hagnaði upp á 401 þúsund krónur á síðasta ári. Þetta var fyrsta starfsár félagsins. Það var stofnað í fyrra í kringum rekstur hljómsveitarinnar Dranga og útgáfu á fyrstu plötu hennar, sem kom út í fyrra. Í bandinu eru þeir Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, Jónas Sigurðsson og Ómar Guðjónsson. Þeir eiga hver sinn 25% hlut í félaginu en rokkstjórinn Jón Þór Þorleifsson fjórðung eins og hinir.

Örn Elías sagði um stofnun félagsins í samtali við Viðskiptablaðið í fyrrahaust að fjórmenningunum hafi fundist það hreinlegast að þeir ættu allir 25% hlut í því.

Fram kemur í fyrsta ársreikningi Einkahlutafélagsins Dranga að seld þjónusta hafi numið rúmum 8,2 milljónum króna í fyrra. Á móti námu gjöld rúmum 7,7 milljónum króna. Þar af nam framleiðslukostnaður rúmum 4,4 milljónum króna. Eignir félagsins námu í lok síðasta árs rúmum 1,8 milljónum króna. Þar af voru viðskiptakröfur upp á rúma milljón og handbært fé upp á 758 þúsund krónur. Á móti námu skuldir 873 þúsund krónum. Allt eru það viðskiptaskuldir.

Á meðal helstu kostnaðarliða var ferðakostnaður upp á tæpar 711 þúsund krónur. Þá nam kostnaður við posaleigu og rekstur tölvukerfis einkahlutafélagsins 228 þúsund krónum. Þá nam rekstur kaffistofu Dranga 71 þúsund krónur í fyrra, að því er fram kemur í ársreikningi félagsins.

Hér má sjá hljómsveitina spila eitt laga sinna.