Hnefaleikagoðsögnin Muhammad Ali er næsta stjarnan sem mun prýða nýjustu auglýsingaherferð Louis Vuitton. Boxarinn, sem varð sjötugur fyrr á árinu, fetar í fótspor Mikhaíl Gorbatsjov, knattspyrnuhetjunnar Pelé, Keith Richards úr Rolling Stones og leikkonunnar Angelinu Jolie.

Fram kemur í netútgáfu bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal, að auglýsingaherferðinni verði ýtt úr vör eftir viku og muni nú verða prentuð í dagblöðum og tímaritum í 60 löndum.

Ljósmyndarinn sem tekur myndirnar af boxaranum er ekki síður frægur. Það er engin önnur en Annie Leibovitz, sem þekkt var fyrir myndir sínar af tónlistarfólki á síðum bandaríska tímaritsins Rolling Stone. Hún hóf þar störf um svipað leyti og blaðið var stofnað eða í kringum 1970.

Á myndinni sem hér birtist og er fengin af netútgáfu Wall Street Journal er sömuleiðis afabarn boxarans, Curtis Muhammad Conway Jr.

Vinstra megin við Ali á myndinni er taska frá Louis Vuitton úr línunni Keepall 50. Hún kostar litlar 1.525 dali út úr búð. Hingað komin má reikna með að hún kosti með áföllnum gjöldum og kostnaði í kringum 356 þúsund krónur.

Hér að neðan má jafnframt sjá myndir úr fyrri auglýsingaherferðum Louis Vuitton.