*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 2. september 2019 15:35

Múlakaffi hagnaðist um 74,5 milljónir

Hagnaðurinn dróst lítillega saman milli ára. Samþykkt var að greiða 38 milljónir króna í arð.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Múlakaffi ehf. og dótturfélög þess hagnaðist um 74,5 milljónir króna á síðasta rekstarári og dróst lítillega saman milli ára. Hagnaður árið 2017 var 81,4 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Múlakaffi hefur á höndum mötuneytis- og veitingarekstur auk veisluþjónustu. Félagið á 75% í KH veitingum ehf. og alla hluti í T veitingum ehf. Þá á félagið að auki Kvörnina ehf. en þar er á ferð fasteignafélag.

Á rekstrarárinu seldi móðurfélagið vörur og þjónustu fyrir tæplega 1,6 milljarð króna en sala samstæðunnar nam rúmum 2,4 milljörðum. Afkoma móðurfélagsins fyrir fjármunatekjur og gjöld nam 60 milljónum króna en að teknu tilliti til þeirra, auk afkomu dótturfélaga, var afkoman jákvæð um 86 milljónir fyrir skatt.

Eigið fé móðurfélagsins stóð í 494,7 milljónum króna í árslok og lækkaði um 42 milljónir króna milli ára. Skuldi voru á móti 291,2 milljónir og drógust saman um rúmar 35 milljónir milli ára. Skuldir samstæðunnar eru samtals 587 milljónir.

Á ársfundi fyrirtækisins var samþykkt að greiða 38 milljónir króna í arð vegna rekstrarársins 2018 en arðgreiðslur árið á undan námu 54 milljónum. Handbært fé í árslok var 13,3 milljónir króna.

Ársverk í fyrra voru 138 en laun og launatengd gjöld móðurfélagsins námu 575,7 milljónum og jukust um rúmar 70 milljónir milli ára. Launagjöld samstæðunnar námu síðan 929 milljónum. Jóhannes Guðvarður Stefánsson er eigandi allra hluta í Múlakaffi ehf.

Stikkorð: Múlakaffi