Fortune, fjármálatímaritið fræga, gefur árlega út spádóma fyrir komandi ár. Nú hefur tímaritið spáð því að tæknirisinn Apple muni kaupa rafbílaframleiðandann Tesla Motors.

Þessi spá er gerð í ljósi þess að Apple hefur lengi verið orðað við að vinna að þróun bifreiðar, og sumir segja félagið stefna á afhjúpanir í kringum 2019.

Auðvelt væri fyrir Apple að kaupa sig inn í Tesla Motors, hafandi gífurlegt reiðufé á höndum sér - einhverja 200 milljarða bandaríkjadala.

Apple myndi þá hafa aðgang að rafhlöðutækni og rafbílaþekkingu Tesla Motors, sem gæti flýtt fyrir þeirra eigin framleiðslu svo um munar.

Einnig minnist Fortune á að Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri Tesla, væri kjörinn arftaki Steve Jobs, enda hugsjónamaður eins og Jobs heitinn.