Breskur fjármálamarkaður veltir því fyrir sér hvort að Baugur muni selja 13,7% hlut sinn í bresku tískuvöruverslunarkeðjunni French Connection (FCUK).

Búist er við verulegum samdrætti hagnaðar félagsins á árinu 2005 og áætlað er að hagnaðurinn nemi 12 milljónum punda (1,48 milljarðar íslenskra króna), samanborið við 33 milljón punda hagnað árið 2004.

FCUK mun birta ársuppgjör síðar í vikunni og telja sérfræðingar að Baugur muni selja niður eignarhlut sinn áður en uppgjörið er birt til að forðast gengistap.

Baugur hefur verið orðaður við hugsanlega yfirtöku á félaginu, en sumir sérfræðingar segja litlar líkur á því nú. Hins vegar benda aðrir á að kauptækifæri geti myndast við slakt uppgjör ef gengi bréfa félagins tekur dýfu.