*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 18. október 2020 11:01

Mun betri afkoma eftir uppskiptingu

Hagnaður Þingvangs margfaldaðist milli ára eftir að hluta félagsins var skipt yfir í nýtt félag. Rekstrarhagnaður jókst um 6%.

Ritstjórn
Þingvangur skipti hluta félagsins yfir í nýtt félag, Köllunarklett ehf.
Haraldur Guðjónsson

Byggingafélagið Þingvangur hagnaðist um 275,9 milljónir króna á síðasta rekstrarári og jókst hagnaðurinn um tæpar 217 milljónir milli ára. Tekjur félagsins drógust saman um 49% milli ára, úr 10,1 milljarði króna í 5,2 milljarða, en rekstrarkostnaður lækkaði á móti um rúm 52%, úr 9,5 milljörðum króna í 4,5 milljarða. Rekstrarhagnaður félagsins jókst um 6%.

Launakostnaður félagsins var rúmar 360 milljónir króna og jókst um 34% milli ára, en meðalfjöldi starfsmanna yfir árið jókst um 5 ársverk, úr 69 í 74, frá fyrra ári.

Eiginfjárhlutfall félagsins við árslok var um 10% samanborið við 5,2% árið áður. Eigið fé félagsins jókst um 35% og var um 983 milljónir króna í árslok, þar af nam hlutafé félagsins sjö milljónum en hlutafé félagsins lækkaði um tvær milljónir að nafnverði þegar hluta af fjárfestingareign félagsins, vaxtaberandi skuldum, tekjuskattsskuldbindingu og eigin fé var skipt yfir í nýtt félag, Köllunarklett ehf., í lok september 2019.

Skuldir félagsins voru um 8,9 milljarðar við árslok og lækkuðu um 33% milli ára, og á áðurnefnd uppskipting þátt í þeirri lækkun. Við árslok 2019 var allt hlutafé félagsins í eigu Pálmars Harðarsonar, sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins. Fyrir lá að félagið myndi sameinast tveimur dótturfélögum sínum í ársbyrjun 2020.