Dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti dómara, hér eftir kölluð nefndin, er enn einu sinni í skotlínunni. Tvær stöður hæstaréttardómara, sem losnuðu í vikunni, verða ekki fylltar strax þar sem það dróst að fullmanna nefndina. Þá er mismikil ánægja með störf nefndarinnar í sumar og velta ýmsir vanhæfi formanns hennar í yfirstandandi máli fyrir sér.

Það hefur verið nokkurt annríki hjá nefndinni í sumar. Í fyrsta lagi þurfti að skipa tvo nýja dómara við Héraðsdóm Reykjaness og var það gert í byrjun síðasta mánaðar. Brátt rennur sitt skeið sex vikna frestur nefndarinnar til að láta í ljós álit sitt á umsækjendum um tvö laus embætti í Landsrétti og strax að því loknu ber nefndinni að gera slíkt hið sama fyrir tvær lausar stöður í Hæstarétti.

Umræður hafa átt sér stað bak við tjöldin innan stéttar lögfræðinga um væntanlegar skipanir í Landsrétt og Hæstarétt. Alls sóttu sjö um fyrrnefndu tvær stöðurnar en átta um hinar tvær síðarnefndu. Sniðmengi umsækjenda samanstendur af lögmanninum Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni. Sá var einn þeirra fjögurra sem hlutu ekki náð fyrir augum dómsmálaráðherra þegar Landsréttur var skipaður á einu bretti eftir að hafa verið metinn af nefndinni í hópi hinna fimmtán hæfustu. Íslenska ríkið var dæmt til að greiða Jóhannesi Rúnari miskabætur vegna þessa í desember 2017.

Kenndu saman í HÍ

Formaður nefndarinnar nú er Eiríkur Tómasson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt og fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands. Þar hafði Eiríkur um árabil umsjón með kennslu í réttarfari í grunnnámi við lagadeildina. Fyrrnefndur Jóhannes var stundakennari í téðu námskeiði í ríflega áratug kringum síðustu aldamót en þá var Eiríkur umsjónarmaður þess. Þegar Jóhannes sótti um í Landsrétti árið 2017 var Eiríkur annar umsagnaraðila um „störf og samstarfshæfni“ hans sem fylgdu með umsókninni um embættið.

Á fyrsta fundi nefndarinnar vegna embættanna í Landsrétti, sem fram fór 4. ágúst síðastliðinn, upplýsti Eiríkur, að beiðni Jóhannesar, aðra nefndarmenn um þessi tengsl. Umsækjendum var einnig gert viðvart og þeim bent á að gera nefndinni viðvart teldu þeir einhvern nefndarmann vanhæfan til að fjalla um málið.

Sjá einnig: Hipsum-haps í umsögnum dómnefndar

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þegar kom að umfjöllun um umsækjendur í Hæstarétt hafi margir nefndarmenn lýst sig vanhæfa vegna tengsla við umsækjendur um stöðurnar tvær. Ekki hafi tekist að fullmanna nefndina fyrr en í upphafi þessarar viku og vantar því tvo dómara upp á að rétturinn teljist fullmannaður næstu vikurnar. Heimildir blaðsins herma enn fremur að formaðurinn Eiríkur hafi lýst sig vanhæfan til meðferðar málsins sökum þess að hann hefði um árabil starfað með umsækjandanum Björgu Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, við lagadeild Háskóla Íslands. Tengsl við Jóhannes höfðu þar ekki áhrif.

Samkvæmt heimildum blaðsins styttist í að vinnu nefndarinnar við umsögn um dómaraefni í Landsrétt liggi fyrir. Drög að umsögn hafi verið send umsækjendum nýverið og þeim gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir.

Umsagnaraðili áður komið að skipun

Þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem umsagnaraðili um umsækjanda kæmi að umsóknarferlinu. Það gerðist einnig þegar Þorsteinn Davíðsson var skipaður héraðsdómari í árslok 2007. Þorsteinn hafði verið aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, en einn þriggja umsagnaraðila hans var Þorsteinn Geirsson, þáverandi ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins. Yfirskrift bréfsins var „MEÐMÆLI“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .