Sterkt samband er milli gengisþróunar og þróunar einkaneyslu hérlendis, segir greiningardeild Glitnis.

?Gengisþróun krónunnar gefur til kynna að dregið hafi úr vexti einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi en vöxturinn hafi þó verið nokkur. Nýleg gengisþróun gefur hins vegar til kynna að einkaneysla muni vaxa áfram á fjórða ársfjórðungi og að vöxturinn sé jafnvel að aukast í stað þess að dragast saman, þvert á spár.

Nánar tiltekið gefur metið samband gengis og einkaneyslu til kynna að einkaneysla hafi vaxið um 3% á þriðja fjórðungi miðað við sama fjórðung í fyrra," segir greiningardeildin.

Hún segir að gengisþróun krónunnar í október gefi jafnframt til kynna að enn meiri vöxtur einkaneyslu geti orðið á fjórða ársfjórðungi í samanburði við fyrra ár eða allt að 5% vöxtur milli ára.

?Hér er þó aðeins um að ræða vísbendingu um hugsanlega þróun einkaneyslu og vert að hafa í huga að enn eru tveir mánuðir eftir af fjórðungnum. Ef þróun einkaneyslu verður með ofangreindum hætti er sennilegt að hægar dragi úr viðskiptahalla en áður var talið," segir greiningardeildin.